Lög Æðarræktarfélags Íslands[1]

 

1. gr.

       Félagið  heitir Æðarræktarfélag Íslands. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Félagið er aðili að Bændasamtökum Íslands.

 

2. gr.

       Félagar geta allir orðið sem: 1) njóta hlunninda af æðarvarpi: 2) hafa áhuga fyrir æðarrækt og stofnun nýrra varpstöðva, að öðru leyti skal fylgt ákvæðum 3. gr. samþykkta BÍ um félagsaðild. Fullgild félagaskrá skal ávallt liggja fyrir á hverjum aðalfundi félagsins.

 

3. gr.

       Félagssvæðið er allt landið, sem skiptist í deildir samkvæmt ákvörðun aðalfunda og skulu trúnaðarmenn vera í hverri deild.

 

4. gr.

       Verkefni félagsins er að efla æðarvarp í landinu og þá fyrst og fremst með því að verja varplönd fyrir hvers konar ágangi vargs. Einnig skal unnið að eflingu hlunninda á viðeigandi hátt að öðru leyti svo sem að auka verðmæti dúns með flokkun og mati á honum. Ennfremur verði leiðbeiningaþjónusta á verkefnaskrá félagsins. Félagið skal fylgjast með sölu á æðardún og vinna að markaðsleit eftir því sem í þess valdi stendur.

 

5. gr.

       Tekjuöflun til nauðsynlegrar starfsemi skal ákveðin á hverjum aðalfundi, samkvæmt áætlun fyrir næsta ár. Félagsgjöld verði einnig ákveðin frá ári til árs. Helmingur félagsgjaldsins greiðist til félagsdeilda.

 

6. gr.

       Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum, formanni og fjórum  meðstjórnendum. Stjórnarmenn skulu eiga aðild að félaginu. Stjórnin skal kosin á aðalfundi til þriggja ára í senn. Stjórnarmenn ganga úr stjórninni þannig: Formaður eftir þrjú ár, tveir meðstjórnendur eftir eitt ár og tveir meðstjórnendur eftir tvö ár og  heldur röðin þannig áfram. Stjórnin skiptir með sér verkum.

Enginn atkvæðisbær maður getur skorast undan kosningu, nema sérstök forföll hamli eða hann hafi verið í stjórn í 3 ár. Kjósa skal tvo varamenn til þriggja ára. Kjósa skal tvo skoðunarmenn reikninga til tveggja ára í senn.

 

7. gr.

       Aðalfund skal halda árlega á þeim tíma, sem best þykir henta, samkvæmt ákvörðun stjórnarinnar og skal hann boðaður með bréfi með minnst 10 daga fyrirvara. Á aðalfundi gerir stjórnin grein fyrir störfum félagsins á liðnu ári og leggur fram tillögur til verkefna næsta árs.

Þá skal hún leggja fram endurskoðaða reikninga félagsins og úrskurðar aðalfundur niðurstöður þeirra.

Á milli aðalfunda skal halda aukafundi eftir því sem stjórn félagsins telur þörf á, einnig ef meirihluti félagsmanna óskar þess. Atkvæðisrétt á aðalfundi og öðrum fundum hafa þeir einir sem skráðir eru í félagatal og greitt hafa árgjald yfirstandandi árs.

 

8. gr.

       Tillögur um lagabreytingar og meiriháttar framkvæmdaáætlanir skulu tilkynntar með fundarboði.

 

9. gr.

       Lögum félagsins má aðeins breyta á aðalfundi og þarf til þess samþykki a.m.k. 2/3 hluta fundarmanna.

 


[1] Lögin eftir breytingar á aðalfundi ÆÍ 12. ágúst 1983, 31. ágúst 1996, 11. nóvember 2000, 2. september 2006 og 27. ágúst 2011.